Frá fornöld að nútíð

Gaman er að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar af hverju konur og menn voru sköpuð svona ólík? Var það til þess að skaparinn fengi að skapa einn stóran og sterkan en annan minni og veikari? Hafði það kannski meira með það að gera að einn gæti fætt af sér líf en hinn upplifað að horfa á aðra manneskju koma litlu barni í heiminn? Svona hlutum væri hægt að velta endalaust fyrir sér og við þessum spurningum finnast vafalaust aldrei fullkomin svör.

Ef við horfum aftur til fornaldar þá hafa samskipti kynjanna alla tíð byggt á ákveðinni hlutverkaskiptingu. Karlmennirnir fóru út og veiddu dýr sem nýtt voru til að fæða og klæða fjölskylduna. Bóndinn kom líka heim með við og tálgaði úr honum vopn. Konurnar elduðu úr hráefninu sem bóndinn færði þeim og saumuðu úr skinninu. Þær sáu jafnframt um að fegra og snyrta heimilið sem í þá daga var yfirleitt hellir eða kofi út í skógi. Þeirra hlutverk var einnig að koma barnaskaranum til manns.  Svona var þetta í fornöld en sem betur fer erum við konur orðnar aðeins framsæknari en hér áður fyrr þótt enn séu margir staðir úti í hinum stóra heimi á hálfgerðu fornaldarstigi ennþá. Það er hins vegar ekki ýkjalangt síðan þessir hlutir fóru að breytast hér á Íslandi. Ekki fyrir svo löngu síðan vann maðurinn úti og færði fjölskyldunni tekjur til að kaupa mat á diskana og efni í fatnað á börnin. Konurnar sáu um að kaupa inn, elda matinn, gefa fólkinu sínu að borða, smyrja nesti og standa á þröskuldinum með bros á vör og opna arma þegar börnin komu hlaupandi heim úr skólanum. Þær saumuðu líka fötin og skreyttu heimili með fallegri handvinna sem þær unnu sjálfar.  Auðvitað tók frúin líka vel á móti bóndanum þegar hann kom heim eftir langan vinnudag, færði honum blaðið og  heitt kaffi á bakka inn í stofu þar sem hann sat og kveikti sér í pípu. Börnin urðu svo að reyna að vera stillt og prúð því pabbi var þreyttur og sýna þurfti honum tillitssemi. Á kvöldin þegar börnin voru gengin til náða og kyrrð og ró komin á heimilið pressaði frúin skyrtu og buxur bóndans til að tryggja að hann væri nú snyrtilega til fara í vinnunni.  Þessi lýsing átti kannski frekar við á heimilum þeirra sem voru vel stæðir. Þeir sem höfðu minna á milli handanna létu nægja að þvo vinnufötin og þar var hvíldartíminn styttri. Engu að síður voru lífsmynstur heimilanna svipuð að því leyta að í fæstum tilfellum vann konan úti. Ætlast var til að hún sinnti heimilisstörfum og uppeldi barnanna hver sem fjárhagsleg staða fjölskyldunnar var. Í dag eru breyttir tímar. Báðir foreldar vinna úti og eru frekar uppteknir af sínum starfsframa. Aðeins örfáar konur eru heimavinnandi. Enginn bíður eftir börnunum með bros á vör og opna arma á þröskuldinum þegar skóladegi lýkur. Flest börn fara beint á frístundaheimili. Sum eru sótt en önnur arka heim með þunga tösku á bakinu eftir erfiðan dag. Þegar heim kemur tekur við heimalærdómur og þar sem flestir eru orðnir þreyttir og pirraðir eftir langan vinnudag eiga foreldrarnir oft erfitt með að aðstoða og styðja börnin. Lexíunum er því hespað af með látum.  Annað er líka mikið breytt. Ef bóndinn dirfist að leggjast upp í sófa meðan frúin tekur til kvöldmat þá fær hann svo illt auga að hann þorir ekki annað en að dröslast á fætur og taka þátt í heimilisstörfunum af innlifun. Það er að segja ef eldaður er kvöldmatur. Þreytan er iðulega það mikil að auðveldara er að lyfta símtólinu panta eitthvern skyndimat. Börnin eru sjaldnast stillt og prúð. Þau rífast um hvert þeirra eigi að gera næst í tölvuleiknum eða hvaða stöð eigi að stilla sjónvarpið á. Unglingurinn á heimilinu situr fyrir framan tölvuna inn í herberginu sínu með lokað að sér. Ýmist er hann á msn-inu eða að spila drápsleik og oftar en ekki með heyrnartól ipodsins í eyrunum á meðan.  

Samskipti milli fólks hafa stórlega minnkað bæði innan fjölskyldunnar og utan. Karlmaðurinn sinnir enn veiðiþörf sinni en nú á dögum veiða menn sér til skemmtunar og til að njóta samvista við aðra veiðimenn. Konurnar uppfylla þörfina fyrir félagsskap í svokölluðum „saumaklúbbum“ en lítið er víst saumað í þeim. Foreldrar og börn eyða líka litlum tíma saman og sjaldnast gefst færi á að ræða saman í ró og næði.  En þessar breytingar virðast ekki hafa eingöngu jákvæðar breytingar í för með sér. Glæpir hafa aukist og sífellt yngri börn fara að misnota áfengi og eiturlyf. Meðal sumra unglinga og ungmenna er eins og siðferði eða hæfni til að greina rétt og frá röngu hafi tapast á leið inn í fullorðinsárin. Tölvuleikir, ofbeldismyndir og einangrun kunnu að hafa brenglað og skemmt huga þeirra. Nú er kannski mál að spyrja: Er hraðinn í þjóðfélaginu það mikill að  við getum ekki sinnt börnum okkar? Er hugsanlegt að heimurinn og mannfólkið séu þannig vaxin að maðurinn eigi að veiða í matinn fyrir fjölskylduna og færa heim björg í bú á meðan konan eldar matinn, saumar á börnin og kemur þeim til manns?  Sú hlutverkaskipting karla og kvenna hljómar harla óspennandi í eyrum nútímakvenna. Fæstar erum við lagnar við saumavélina, hvað þá prjónaskapinn og svo er þörfin fyrir að vera í samskiptum við annað fullorðið fólk mjög sterk. Kannski snýst þetta fyrst og fremst um það að koma betra skipulagi á hlutina og minnka álagið á fjölskylduna.  

Hver og einn getur lagt þar sitt af mörkum og ein góð hugmynd er sú að á hverjum degi hverfi fjölskyldan saman aftur í fornöld svolitla stund. Þá er slökkt á öllum óþarfa rafmagnstækjum, eins og gemsum og sjónvarpi, ljósin dempuð, jafnvel kveikt á kertum og síðan farið saman yfir það sem gerðist um daginn. Hver og einn nefnir einn hápunkt úr sínu lífi og deilir honum með fjölskyldunni. Í lokin passa allir sig á að faðmast og kyssa hvern annan góða nótt. Það tryggir að allir fari ánægðir og sáttir að sofa. Svona stund þarf ekki að taka meira en tuttugu mínutur en gefur fjölskyldunni svo miklu meira en hægt er að ímynda sér og allir fá aukna orku til að takast á við nýjan og annasaman dag á jákvæðari og skemmtilegri hátt.

Þessa gein er að finna í 3tbl.2arg.mars2007 í h tímariti www.htimarit.is e. höfund blogs.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband